Saga írska settersins

Írski rauði setterinn er sennilega best þekktur og vinsælastur allra írskra hundategunda. Hann er nú eins útbreiddur í Bretlandi og Bandaríkjunum og á Írlandi. Þó er uppruni hans - eins og hann lítur nú út - ekki gamall, líklega síðan snemma á átjándu öld. Það er sennilegt að setterar séu komnir af landspaniels, sem notaðir voru við að reka bráð í net. Setterarnir urðu vinsælir á Írlandi á átjándu öld, þegar þeir voru þjálfaðir til þess að finna veiðibráð fyrir skotveiðimenn. Hundabein, sem fundist hafa við fornleifauppgröft, og eru frá fyrstu árum tímatals okkar, eru sömu stærðar og nútíma írskur setter.

O'Connor fjölskyldan er álitin hafa rekið hundabú með bæði flekkóttum og einlitum setterum í lok átjándu aldar og jarlinn af Enniskillen rak hundabú með eingöngu rauðum setterum árið 1796. Þótt rauði setterinn væri tiltölulega fáséður á fyrri hluta nítjándu aldar, vann hann sífellt á í vinsældum og um 1860 vann rauður setter, sem hét Bob, fyrstu verðlaun á hinni frægu hundasýningu í Birmingham. Major Hutchinson átti Bob, sem gat af sér Ranger, annan mjög þekktan rauðan setter.

Þegar félagið um rauða írska setterinn (The Irish Red Setter Club) var stofnað árið 1882 í Dublin, með Capt. Geoffrey Gillrap fyrsta formann þess, var rauði setterinn þegar orðinn svo vinsæll, að hann var í huga flestra orðinn hinn eini írski setter. Þrátt fyrir það er álitið að orðið "rauða" hafi verið bætt inn í nafn félagsins vegna þess að félagsmenn hafi enn verið hikandi hvort kröfur þeirra þess efnis að tegundin væri aðskilin frá rauða og hvíta setternum ætti rétt á sér. Hvað sem því leið dafnaði áhugi á rauða setternum meðan áhugi á rauða og hvíta setternum dvínaði. Þegar leið að lokum nítjándu aldar, var þegar farið að flytja út fjölda rauðra settera og rækta þá utan Írlands.

Anna Redlich átelur það í bók sinni, að sumir þessara hunda hafi verið settir fyrir kerrur og vagna og notaðir til veðhlaupa. Að hennar áliti auðvirðisleg dægrastytting á kostnað svo göfugrar hundategundar. Því miður einkenndust kvartanir gegn fjölda hunda sem náðu góðum árangri á hundasýningum að því að eigendur þeirra litu fremur á setter sem falleg gæludýr en þarfa félaga. Írska hundaræktarfélagið hefur þó tryggt að rauði írski setterinn og reyndar allir veiðihundar verði að standast erfið veiðipróf og rauði írski setterinn hefur reynst hafa fleira til brunns að bera en fegurðina. Það hefur stundum verið sagt, að rauði írski setterinn hafi kvikult lunderni og það sé erfiðara að venja hann en rauða og hvíta setterinn. Aðrir eigendur segja hins vegar að hegðun hundsins fari í einu og öllu eftir því hversu vel hann sé vaninn.

Á síðustu öld voru ýmsir veiðimenn mótfallnir rauða setternum vegna þess hversu erfitt var að sjá hundinn í samlitu landslagi, sérstaklega á haustin og veturna þegar rauðbrúnt lauf burkna þekur hæðir Írlands. Til er vafasöm saga um setter sem týndist á veiðum. Sölnuð bein hans voru sögð hafa fundist ári seinna á afskekktum stað á heiði nokkurri - þar sem þau stóðu á löngu floginn fugl! Slíkar sögur komu því til leiðar, að eigendur rauðra settera bundu oft hvítan efnisbút eða klút um háls hundsins, þannig að auðvelt væri að sjá hundinn og forða honum frá slysaskoti.

Írskir áhugamenn um þessa hundategund minnast framlags Colonel J. Milner, sem stýrði liði írskra riffilskyttna til sigurs á Ólympíulekunum 1908. Hann átti hina þekktu tík Airne, sem varð önnur, með aðeins örlitlum mun frá fyrsta sæti, í Derby keppni enska hundaræktarfélagsins í Shrewsbury. Svo var það meistari (Blue Ribbon) þeirra tíma, Plunkett, eigandi séra J.C. MacDonagh, sem var sífellt að vinna keppnir á Írlandi og Englandi. Síðan var Plunkett seldur til Purcell Llewellyn, sem var þekktur fyrir enska settera. Á vegum hans vann Plunkett fyrstu tvenndarkeppnina sem keppt var í, ásamt enska setternum Countess. Þetta sögulega atvik var gert ódauðlegt á frægu málverki eftir Colin Graeme. Án efa er J.G. Hawkes sá maður sem var frumkvöðull í að gera írska setterinn frægan í veiðiprófum og sendi hann hunda víðs vegar um heiminn.

Sterkur stuðningsaðili írska settersins í Ameríku var Dr. W. Jarvis í Claremount, Ohio og hundur frá honum, sem kallaður var Joe Junior, sigraði í fyrstu veiðiprófunum sem haldin voru í þeirri álfu. Joe Junior var undan hundi Dr. Jarvis, Elcho, sem aftur var undan Garryowen, hundi Capt. Giltrap. Á heimaslóðum írska settersins væri útilokað að telja upp alla þá ræktendur og þjálfara sem hafa öðlast frægð á blöðum sögu írska settersins. Menn eins og J.A. Carberry, eiganda Ch. Gadeland Neula of Boyne, sem vann til fleiri en 200 verðlauna í opinni keppni (Open Stake) og að endingu fór til ræktunarbús Mrs. Baker. Úr tveim fyrstu gotum Neula komu 12 verðlaunahafar. Major Bob O'Kelly frá Kilpeacon, nálægt Limerick, og tveir hunda hans, Gilpin (nefndur eftir fyrsta formanni Irish Red Setter Club) og June, unnu til margra verðlauna í veiðikeppnum bæði á Írlandi og í Bretlandi á fjórða áratugnum. Svo voru það hundarnir tveir, sem alltaf virtust vera við hlið hans þegar hann fór á veðreiðar eða hrossasýningar, þeir voru, sem fegra goðsagnir um írska setterinn, með tryggð sinni og greind. Frá sama tíma eru einnig til svipaðar munnmælasögur um W. Kemmis, séra J. McMenamin, McGillicuddy með Reeks hundana.

Nútíma sögusagnir eru svo til um Sean Dennehy og John Nash. Hið veika kyn, konurnar, þurftu hvorki á jafnrétti né frelsi að halda þegar þær kepptu í veiðiprófum eða á hundasýningum. Því þær hafa áunnið sér aðdáun fyrir frábæran árangur í gegnum tíðina. Miss P. Kelly, Mrs. M. McKeever, Mrs. Richardson, markgreifafrúin af Waterford og margar fleiri hafa í gegnum árin verið orðaðar við hinn besta árangur sem náðst hefur með írska setterinn. Framúrskarandi árangur Mrs. Bernice Wall, sem ræktaði, átti og þjálfaði Avondhu Heather Honey, sigurvegara í Meistarakeppni írska hundaræktarfélagsins fyrir benda (pointers) og settera og fylgdi því eftir með því að verða önnur í samskonar breskri keppni 1984. Þessu var náð á fimm dögum að meðtöldum þeim ferðalögum sem nauðsynleg voru til að geta keppt í báðum þessum mótum. Raunverlegt sýnishorn af "írskri heppni", þetta ofnotaða hugtak, sem svo oft hefur verið nýtt til þess að gera lítið úr góðum árangri þessara rauðu hunda. Félagar í ýmsum hundafélögum deila oft um kosti einnar hundategundar fram yfir aðra en írski rauði setterinn hefur auk sinnar "írsku heppni", sem hann hefur haft í meira en öld, þrifist vel þrátt fyrir niðrandi ummæli andstæðinga sinna. Hann er greinilega ekki aðeins blíðlyndur og tryggur fjölskylduhundur heldur einnig framúrskarandi veiðihundur.